Fjarðabyggð sigraði KV í æfingaleik

Byrjunarlið Fjarðabyggðar: Þorvaldur Marteinn Jónsson markvörður, Haraldur Þór Guðmundsson hægri bakvörður, Sævar Örn Harðarson vinstri bakvörður, Víglundur Páll Einarsson og Sverrir miðverðir. Stefán Þór Eysteinsson og Aron Gauti Magnússon djúpir miðjumenn. Pálmi Þór Jónasson fyrir framan þá. Marteinn Þór Pálmason hægri væng og Víkingur Pálmason á vinstri væng. Hlynur Bjarnason fremstur.

Í hálfleik kom Örvar Steinn Heimisson inn á fyrir Víglund, Marinó Máni Atlason fyrir Sævar, Martin Sindri Rosenthal fyrir Martein og Hákon Þór Sófusson fyrir Pálma. Eftir klukkutíma leik kom Filip Marcin Sakaluk inn á fyrir Víking, Hafþór Ingólfsson fyrir Harald og Emil Logi Birkisson fyrir Hlyn.

Leikið var í Frostaskjóli á gervigrasvelli KV og urðu lokatölur 3-1 fyrir Fjarðabyggð. Mörkin skoruðu Víkingur Pálmason, Hlynur Bjarnason og Emil Logi Birkisson.

Samið við unga leikmenn

Í dag skrifuðu 9 ungir leikmenn undir samninga við Fjarðabyggð. Fimm þeirra eru fæddir 1999 og fjórir fæddir 1998.

Á myndinni má sjá í efri röð frá vinstri: Víglundur Páll Einarsson þjálfari, Pálmi Þór Jónasson, Mikael Natan Róbertsson, Hafþór Ingólfsson, Þorvaldur Marteinn Jónsson og Sveinn Marinó Larsen.
Neðri röð frá vinstri: Filip Marcin Sakaluk, Marinó Máni Atlason, Emil Logi Birkisson og Patrekur Darri Ólason.

Til hamingju með samninginn strákar.

Víglundur Páll nýr þjálfari Fjarðabyggðar

Víglundur Páll Einarsson hefur verið ráðinn þjálfari karlaliðs Fjarðabyggðar næstu tvö árin. Víglundur Páll er 32 ára og hefur þrátt fyrir ungan aldur þjálfað meistaraflokka frá árinu 2010, fyrst Langevag í Noregi og síðan Einherja.

Sem leikmaður hefur Víglundur spilað 180 leiki í 1.-4. deild á Íslandi ásamt því að mennta sig sem þjálfari. Víglundur lauk B gráðu KSÍ árið 2008 og lauk síðan A gráðunni árið 2012.

Víglundur hefur því bæði góða reynslu sem leikmaður og þjálfari og má þess geta að árið 2005 lék Víglundur einmitt með Fjarðabyggð í 2. deild.

Til hamingju með starfið Víglundur og velkominn í Fjarðabyggð.

Samstarfssamningur yngri flokka Fjarðabyggðar og Coerver Coaching

Coerver Coaching og yngri flokkar Fjarðabyggðar hafa gert með sér samkomulag til næstu 3ja ára.
Coerver Coaching mun veita félaginu faglega ráðgjöf og fræðslu í þjálfun barna og unglinga. Auk þess sem iðkendur félagsins munu fá góða þjálfun í æfingaáætlun Coerver Coaching.
Coerver Coaching er hugmynda- og æfingaáætlun í knattspyrnu sem þjálfar upp færni og hentar öllum aldurshópum en sérstaklega aldrinum 6-16 ára á öllum getustigum. Hugmyndafræði sem einblínir á að þróa færni einstaklingsins og leikæfingar í smáum hópum. Coerver Coaching var stofnað árið 1984 og starfar í 42 löndum víðsvegar um allan heim.
Yfirþjálfari Coerver Coaching á Íslandi er Heiðar Birnir Torleifsson.
Yngri flokkar Fjarðabyggðar bjóða Coerver Coaching velkomið til starfa og væntir mikils af samstarfinu.

Verðlaunahafar á lokahófi

Lokahóf Knattspyrnufélags Fjarðabyggðar var haldið í Egilsbúð laugardagskvöldið 12. september. Á myndinni má sjá verðlaunahafa kvöldsins en hjá kvennaliðinu var Freyja Viðarsdóttir valin best, Telma Ívarsdóttir efnilegust, Katrín Björg Pálsdóttir sýndi mestar framfarir og Freyja Viðarsdóttir var markahæst.

Hjá karlaliðinu var fyrirliðinn Hafþór Þrastarson valinn bestur, Bjarni Mark Antonsson efnilegastur, Elvar Ingi Vignisson sýndi mestar framfarir og Brynjar Jónasson var markahæstur.

Glæsilegir fulltrúar Knattspyrnufélags Fjarðabyggðar hér á ferð.