Bestur í 2. deild: Rauðhærði Ástralinn bjargaði okkur

,,Ég get ekki sagt að þetta hafi verið okkar besti leikur í sumar. Við hefðum vel getað verið 3-0 undir eftir 15 mínútur en við erum með rauðhærðan Ástrala í markinu sem hélt okkur inn í leiknum. Eftir það vorum við svo nokkurnvegin með undirtökin í leiknum,” sagði Brynjar Jónasson leikmaður Fjarðabyggðar um 3-0 útisigur liðsins á KF í 2.deild karla um síðustu helgi. 
 
Brynjar skoraði tvö mörk í leiknum og er leikmaður 8. umferðar í 2. deildinni 
 
,,Manni finnst alltaf ganga vel þegar maður skorar tvö mörk. Það er gott að hafa menn fyrir aftan sig sem mata mann af færum hvað eftir annað,” sagði Brynjar sem er ánægður með byrjunina hjá Fjarðabyggð. Liðið er í efsta sæti deildarinnar með 19 stig en Fjarðabyggð eru nýliðar í 2.deildinni, 
 
,,Eina sem við sjáum eftir er tapið á móti Aftureldingu. Þar sem við vorum betri aðilinn og hefðum átt að vinna þann leik. Annars erum við búnir að spila góðan fótbolta en getum ennþá gert betur.” 
 
Brynjar gekk í raðir Fjarðabyggðar frá FH í vetur, ásamt tvíbura bróður sínum, Andra. Þriðji FH-ingurinn, Emil Stefánsson gerði einnig vistaskipti yfir í Fjarðabyggð í vetur. Hann sér svo sannarlega ekki eftir þessari ákvörðun, 
 
,,Lífið er eins gott og það verður hérna fyrir austan. Þetta er nánast eins og að vera í sveitinni. Það liggur við að maður vakni með kind hliðin á sér einn daginn. Þetta er ein af bestu ákvörðunum sem ég hef tekið. Það er gaman að búa einn og læra að elda sjálfur og sjá um sig. Ekki má gleyma veðrinu sem er alltaf gott hérna.” 
 
Eins og fyrr segir er Fjarðabyggð nýliðar í 2.deildinni. Brynjar segir að liðið geti hiklaust farið upp um deild í sumar. ,,Við erum með marga leikmenn í liðinu okkar sem eru með reynslu á því að vinna titla og fara upp um deildir,” og þar á hann líklega við um varnarmann liðsins, Tommy Nielsen fyrrum leikmann FH í efstu deild. ,,Það sem hefur komið mér mest á óvart er að Tommy geti ennþá staðið í lappirnar,” sagði besti leikmaður 8. umferðar í 2.deild karla, Brynjar Jónasson.
 
Frétt frá Fótbolta.net.

2. deild: Fjarðabyggð aftur á toppinn

KF 0 - 3 Fjarðabyggð 
0-1 Brynjar Jónasson ('73) 
0-2 Brynjar Jónasson ('77) 
0-3 Hákon Þór Sófusson ('83)
 
Fjarðabyggð er komið á topp 2. deildar karla að nýju eftir að hafa unnið sigur á KF á Ólafsfirði í dag. 
 
Brynjar Jónasson skoraði tvö mörk og Hákon Þór Sófusson það þriðja fyrir Fjarðabyggð sem er með 19 stig á toppnum, tveimur meira en Grótta sem er í öðru sæti.
 
2. flokkur vann sinn fyrsta sigur í dag þegar þeir lögðu Þrótt R. að velli á Eskjuvelli 2-1. Mörk okkar manna skoruðu Halldór Guðmundsson og Haraldur Þór Guðmundsson.

1. deild kvenna: Fjarðabyggð 2 - 2 ÍR

Fjarðabyggð 2 - 2 ÍR 
1-0 Ástrós Eiðsdóttir ('13) 
1-1 Guðrún Ósk Tryggvadóttir 
1-2 Sandra Dögg Bjarnadóttir 
2-2 Sasithorn Phuangkaew(Nína) ('85) 
 
Fjarðabyggð og ÍR gerðu í kvöld jafntefli 2-2. Ástrós Eiðsdóttir kom Fjarðabyggð yfir eftir 13. mínútna leik sem var staðan í hálfleik.
 
Á stuttum kafla um miðjan síðari hálfleik skoraði ÍR tvö mörk áður en Nína jafnaði í lokin fyrir Fjarðabyggð. Fínn leikur og fyrsta stig sumarsins í hús.

Bestur í 2. deild: Tommy betur fer ekki oft að klobba menn

,,Ég myndi ekki segja að þetta hafi verið besti leikurinn okkar í sumar," segir Andri Þór Magnússon varnarmaður Fjarðabyggðar um 3-1 sigur liðsins á Gróttu í toppslag í 2. deild karla um síðustu helgi. 
 
Fjarðabyggð sigraði leikinn 3-1 en Andri var eins og klettur í vörninni og er leikmaður 7. umferðar í 2. deildinni. 
 
,,Án þess að reyna að vera eitthvað of hrokafullur en þá finnst mér við ekki ennþá hafa spilað góðar 90 mínútur. Við höfum átt góðar 45 mínútur hér og þar. En við erum nú yfirleitt góðir varnarlega og verjumst hrikalega vel sem lið en það hefur svolítið vantað að klára færin okkar." 
 
Fjarðabyggð skaust með sigrinum á toppinn en liðið er með 17 stig að loknum sjö umferðum. 
 
,,Ég er frekar sáttur með byrjunina fyrir utan skituna gegn Aftureldingu þar sem ég var klaufalegur og gaf víti á 94. mínútu. Í þeim leik hefðum við átt að nýta færin okkar betur. En maður getur lítið kvartað þar sem við erum efstir," sagði Andri sem telur að Fjarðabyggð geti barist um að sæti 1. deild að ári. 
 
,,Við erum klárlega með hópinn til að berjast um annað af þessum 2 sætum sem fara upp, en annars er það bara gamla klisjan og taka einn leik í einu og síðan teljum við bara stigin eftir seinasta leik." 
 
Fjarðabyggð vann 3. deildina í fyrra eftir að hafa fallið hratt niður úr 1. deildinni. Andri Þór hefur leikið lengi með liðinu og hann telur að liðið í dag sé eitt það sterkasta í langan tíma. 
 
,,Við vorum náttúrulega búnir að vera í frjálsu falli síðan 2009 eða þangað til við fórum alveg á botninn og fórum í þriðju deildina. Ég myndi segja að þetta lið í dag væri með betri Fjarðabyggðarliði sem ég hef spilað með. Við erum með réttu blöndu núna, tvo gamla í vörninni, Tommy og Jói (Jóhann Benediktsson), og síðan tiltölulega ungir og hressir strákar í kringum þá. Leikstíllinn er líka aðeins skemmtilegri núna eftir að Binni (Brynjar Þór Gestsson) tók við." 
 
Gamla kempan Tommy Nielsen lék við hlið Andra í hjarta varnarinnar á laugardag en hann er einnig aðstoðarþjálfari hjá Fjarðabyggð. 
 

2. deild: Fjarðabyggð vann toppslaginn

Fjarðabyggð 3 - 1 Grótta: 
1-0 Nik Chamberlain ('30) 
1-1 Viggó Kristjánsson ('36) 
2-1 Nikolas Jelicic ('86) 
3-1 Hákon Þór Sófusson ('92) 
 
Fjarðabyggð er komið í toppsæti 2. deildar karla eftir að hafa unnið toppslaginn við Gróttu með þremur mörkum gegn einu. 
 
Nik Chamberlain kom Fjarðabyggð yfir í leiknum en Viggó Kristjánsson jafnaði metin og staðan 1-1 í hálfleik. 
 
Allt benti til þess að það yrði niðurstaðan þegar Fjarðabyggð skoraði tvö mörk í lokin og tryggði sér sigurinn. 
 
Fjarðabyggð er komið í toppsætið með 16 stig eftir sigurinn en Grótta er í 2. sætinu með 14 stig. 
 
Huginn sem mætir Ægi á morgun gæti farið í 2. sæti með sigri en þeir eru í 3. sæti með 12 stig.
 
Frétt frá Fótbolta.net.