Villa
  • Error loading feed data

2. deild: Fjarðabyggð 4-0 KF

5' Brynjar Jónasson [1 - 0]
10' Almar Daði Jónsson [2 - 0]
52' Brynjar Jónasson [3 - 0]
71' Brynjar Jónasson [4 - 0)

Fjarðabyggð sigraði KF 4-0 á Eskjuvelli í dag. Fjarðabyggð byrjaði leikinn vel því á 5. mínútu skoraði Brynjar Jónasson og á 10. mínútu bætti Almar Daði Jónsson við öðru marki.

Brynjar Jónasson bætti svo við tveimur mörkum í seinni hálfleik og fullkomnaði þrennuna. Lokatölur því 4-0 og Fjarðabyggð nú með 8 stiga forskot á Gróttu í 2. sæti þegar þrír leikir eru eftir.

Næsti leikur er á Seyðisfirði gegn Huginn laugardaginn 6. september kl. 14.

2. deild karla: Fjarðabyggð - KF

Fjarðabyggð mætir Fjallabyggð á Eskjuvelli kl. 16 laugardaginn 30. ágúst. Fjarðabyggð tryggði sér 1. deildar sæti um síðustu helgi á Gróttuvelli og mættu fjölmargir stuðningsmenn Fjarðabyggðar á leikinn.

Frábær stuðningur og nú styðjum við strákana áfram í að tryggja sér 1. sætið og vinna deildina.

Smellið hér til að sjá rafræna leikskrá fyrir leikinn.

Tommy Nielsen hættur: Fyrstu titlarnir með FH standa upp úr

Daninn Tommy Nielsen er goðsögn hjá FH en þessi öflugi varnarmaður gerði garðinn frægan með félaginu í níu ár. Hann varð fimm sinnum Íslandsmeistari með FH og tvívegis bikarmeistari.

Hann hefur nú lagt skóna á hilluna í annað sinn en þeir eru komnir til að vera í hillunni að þessu sinni enda er hann orðinn 42 ára gamall.            

Tommy hætti hjá FH eftir tímabilið 2011 en tók skóna fram að nýju fyrir tímabilið í fyrra og gekk þá til liðs við Fjarðabyggð. Á fyrsta tímabili hjálpaði hann liðinu upp í 2. deild og í ár tók hann þátt í því að koma liðinu upp í 1. deild.

„Þetta er komið gott en það er frábært að ná að enda ferilinn með þessum hætti og gaman að taka þátt í þessu. Ég vissi ekki alveg hvað ég var að fara út í þegar ég tók skóna fram aftur en þetta gekk mjög vel," segir Tommy við Fótbolta.net.

Hefur gaman að þjálfun
Hann varð fyrir krossbandaslitum í hné og getur því ekki klárað tímabilið með Fjarðabyggð en liðið hefur þegar tryggt sér sæti í 1. deildinni. Tommy gæti farið út í frekari þjálfun en hann er aðstoðarþjálfari Fjarðabyggðar.

„Ferlinum er lokið og nú gefur maður fjölskyldunni tíma. Það er kannski hollt að taka sér frí alveg frá boltanum í eitt ár eða svo, þetta kemur allt í ljós. Ég hef verið í þjálfun og það er eitthvað sem ég er alveg opinn fyrir því að þjálfa áfram í framtíðinni. Við klárum þetta tímabil og sjáum hvað gerist."

En er hann að stefna í meistaraflokksþjálfun í framtíðinni?

„Það hefur alveg komið upp í hugann en mér finnst einnig mjög skemmtilegt að þjálfa yngri leikmenn. Það gæti alveg verið að maður verði meistaraflokksþjálfari ef rétta tilboðið kemur en ég þarf að bæta mig við þjálfaramenntun. Það er mjög líklegt að ég geri það," segir Tommy.

Stemningin í klúbbnum ólýsanleg
Þegar Tommy lítur yfir fótboltaferilinn standa fyrstu stóru titlarnir hjá FH upp úr. Hann var sem klettur í vörn FH og er hiklaust einn besti erlendi leikmaður sem hefur spilað hér á landi.

„Það sem stendur upp úr eru fyrstu titlarnir með FH. Stemningin í klúbbnum var algjörlega ólýsanleg. Við tryggðum okkur fyrsta Íslandsmeistaratitilinn í sögu FH með sigri gegn KA á Akureyri 2004 og fengum svo rosalegar móttökur þegar við komum heim. Það var ótrúlega gaman ásamt því að taka þátt í Evrópuverkefnum," segir Tommy Nielsen.

Frétt frá Fótbolta.net. Sjá alla fréttina:  http://fotbolti.net/news/27-08-2014/tommy-nielsen-haettur-fyrstu-titlarnir-med-fh-standa-upp-ur#ixzz3BbGgVzh3

Bestur í 2. deild: Erum að spila sóknarbolta sem virkar Leikmaður 18. umferðar - Sveinn Fannar Sæmundsson (Fjarðabyggð)

Sveinn Fannar Sæmundsson er leikmaður 18. umferðar í 2. deild karla en hann átti flottan leik þegar Fjarðabyggð sigraði Gróttu 3-2 á útivelli í fyrradag og gulltryggði um leið sæti í 1. deild að ári. 

,,Já ég var mjög ánægður með sigurinn. Við fáum reyndar þetta ljóta klaufamark á okkur rétt fyrir hálfleik en heilt yfir fannst mér þetta nokkuð solid frammistaða hjá liðinu. Vorum ávallt hættulegir fram á við og vörðumst mjög vel þó að við höfum fengið tvö mörk á okkur," sagði Sveinn Fannar við Fótbolta.net í dag. 

Fjarðabyggð er fimm stigum á undan Gróttu þegar fjórar umferðir eru eftir og Sveinn Fannar segir að markmiðið núna sé að vinna deildina. ,,Já engin spurning. Það væri gaman að vinna tvær deildir í röð og skuldum okkur og fleirum það eftir skituna sem átti sér stað þegar við féllum niður í 3.deild."

Fjarðabyggð vann 3. deildina í fyrra og liðið er því að fara upp um deild annað árið í röð. Sveinn Fannar segir að árangurinn í sumar komi þó ekki á óvart. 

,,Nei eiginlega ekki, erum búnir að vera æfa stíft síðan seinasta tímabil endaði. Erum að spila góðan bolta og erum bara heilt yfir orðnir betri knattspyrnumenn en á seinasta tímabili. Erum meira og meira að læra hvernig bolta Binni (Brynjar Þór Gestsson) vill að við spilum," segir Sveinn Fannar en hverju þakkar hann góðu gengi í sumar? 

,,Ætli það sé ekki bara leikgleðinni í hópnum, alltaf skemmtilegast að spila þegar það gengur vel. Allt liðið þekkir hvorn annan vel, innan og utan vallar. Þjálfarinn á auðvitað einnig stóran hlut í þessu, erum að spila þennan sóknarbolta sem hann vill að við spilum og hann hefur gengið mjög vel hingað til. Svo eru það bara stuðningsmennirnir og yndislega fólkið sem vinnur í kringum þennan klúbb."

Fjarðabyggð spilaði í 1. deild í nokkur ár áður en liðið féll árið 2010. Sveinn FAnnar vill meina að félagið geti fest sig í sessi í 1. deildinni. 

,,Ég hef trú á því já, við erum að spila sóknarbolta sem virkar, skorum mikið og fáum fá mörk á okkur í leiðinni. Við erum líka með mjög ungt lið, ætli meðalaldurinn á hópnum væri ekki svona um 22. ára ef Tommy (Nielsen) væri ekki. Ég held að Fjarðabyggð muni einungis verða betri þegar við ungu mennirnir fáum meiri reynslu og hef þá mikla trú á að við verðum sterkt 1. deildarfélag," segir Sveinn og bætir við að fótboltaáhuginn sé mikill á Austurlandi. 

,,Já, mér finnst það. Það mæta margir á heimaleiki hjá okkur og býst ég við að það muni fleiri mæta á næsta tímabili. Það eru líka margir Austfirðingar sem búa á höfuðborgarsvæðinu og sýna sig á leikjum okkar þar. En heilt yfir er ég mjög glaður með áhugann þó að það sé aldrei of mikið af honum."Frétt frá Fótbolta.net.

Fjarðabyggð upp í 1. deild

Fjarðabyggð tryggði sér í dag sæti í 1. deild karla í knatt­spyrnu að ári, með því að vinna Gróttu, 3:2 á úti­velli í toppslag 2. deild­ar í dag. Á sama tíma gerði ÍR jafn­tefli við Sindra, 2:2 og þar með get­ur aðeins Grótta náð Fjarðabyggð sem er í 1. sæti í 2. deild að stig­um og Fjarðabyggð verður því í 1. deild á næsta ári.

Guðmund­ur Marteinn Hann­es­son kom Gróttu yfir á 5. mín­útu í dag, en Jó­hann Ragn­ar Bene­dikts­son skoraði svo tvö mörk fyr­ir Fjarðabyggð áður en fyrri hálfleik­ur var á enda. Aust­f­irðing­ar urðu þó fyr­ir því óláni að skora sjálfs­mark áður en Sveinn Fann­ar Sæ­munds­son skoraði sig­ur­mark Fjarðabyggðar á 55. mín­útu.

Úrslit dags­ins í 2. deild karla
Hug­inn - Ægir, 4:1
Njarðvík - Völsung­ur, 2:2
Grótta - Fjarðabyggð, 2:3
Sindri - ÍR, 2:2

Fjarðabyggð hef­ur nú 43 stig í 1. sæti þegar fjór­ar um­ferðir eru eft­ir, Grótta er í 2. sæti með 38 stig og ÍR í 3. sæti með 30 stig.

Fjarðabyggð sigraði Gróttu í toppslag

Fjarðabyggð er komið með 43 stig á toppnum í 2. deild karla eftir 3-2 útisigur gegn Gróttu. Mörk Fjarðabyggðar skoruðu Jóhann Ragnar Benediktson tvö og svo var það Sveinn Fannar Sæmundsson sem skoraði sigurmarkið í seinni hálfleik.

Frábært hjá strákunum sem nú hafa 5 stiga forystu á Gróttu sem er í 2. sæti þegar fjórir leikir eru eftir.