Verðlaunahafar

Lokahóf Knattspyrnufélags Fjarðabyggðar var haldið í Egilsbúð laugardagskvöldið 13. september. Á myndinni má sjá verðlaunahafa kvöldsins en hjá kvennaliðinu var Alexandra Sæbjörg Hearn valin best, Elín Huld Sigurðardóttir efnilegust, Sólrún Mjöll Jónsdóttir sýndi mestar framfarir og Andrea Magnúsdóttir var markahæst. Á myndina vantar Alexöndru og Sólrúnu.

Hjá karlaliðinu var fyrirliðinn Stefán Þór Eysteinsson valinn bestur, Emil Stefánsson efnilegastur, Brynjar Jónasson sýndi mestar framfarir og var einnig markahæstur í sumar.

Glæsilegir fulltrúar Knattspyrnufélags Fjarðabyggðar hér á ferð.

Meistarar

Fjarðabyggð 2 - 0 Sindri
1-0 Sveinn Fannar Sæmundsson ('43) 
2-0 Almar Daði Jónsson ('90)

Fjarðabyggð sigraði Sindra 2-0 á Norðfjarðarvelli í dag en fjölmargir áhorfendur mættu til að sjá strákana taka á móti bikarnum fyrir sigur í 2. deild.

 
Frábær árangur í sumar og 1. deildin næsta sumar verður án efa skemmtileg líka enda flott og krefjandi verkefni.

Bikarinn í höfn hjá Fjarðabyggð

Huginn 1-1 Fjarðabyggð.
0-1 Brynjar Jónasson (´32)
1-1 Ragnar Mar Konráðsson (´58)

Fjarðabyggð tryggði í dag 1. sætið í 2. deild eftir 1-1 jafntefli á Seyðisfirði gegn Huginn. Brynjar Jónasson kom Fjarðabyggð yfir í fyrri hálfleik úr víti eftir að brotið var á Hákoni Þór Sófussyni. Huginn jafnaði svo í seinni hálfleik og þar við sat.

Fjarðabyggð því orðnir 2. deildarmeistarar þó tveimur leikjum sé ólokið og hefur nú 9 stiga forskot á Gróttu en aðeins 6 stig í pottinum.

Til hamingju Fjarðabyggð.

Leiknir Fáskrúðsfirði gefur þjálfara Fjarðabyggðar sektarsjóðinn

Leiknir Fáskrúðsfirði, sem leikur í 3. deild, hefur ákveðið að gefa Brynjari Gestssyni þjálfara Fjarðabyggðar og fjölskyldu hans sektarsjóð sem leikmenn hafa safnað í sumar. 

Líkt og mörg félög á Íslandi eru Fáskrúðsfirðingar með sektarsjóð þar sem leikmenn fá sekt fyrir ýmislegt. 

,,Konan mín er búin að vera í krabbameinsmeðferð frá því í maí hér fyrir sunnan og er enn. Við höfum verið að ferðast mikið á milli landshluta um helgar og eiginlega hvenær sem tækifæri hefur boðist til þess að hittast," sagði Brynjar við Fótbolta.net í dag. 

,,Eins og gefur að skilja er kostnaður við öll veikindi gríðarlegur og ekki lækkar hann þegar maður býr út á landi. Við fengum óvænt góða hjálp, og úr átt sem að maður bjóst alls ekki við og langar mig til þess að góðverk sem þetta fréttist og um leið sýna þeim þakklæti okkar." ,,Leikmenn Leiknis Fáskrúðsfjarðar ákváðu að styrkja gott málefni með sektarsjóði sínum og urðu sammála um það að láta sjóðinn renna til okkar hjónanna. Mér finnst þetta vera frábært framtak hjá liðinu og kom þetta sér vissulega mjög vel fyrir okkur en einnig líka mjög á óvart. Við erum óendanlega þakklát og finnst mér að fleiri lið ættu að taka sér þetta framtak til fyrirmyndar." ,,Ég horfi á þetta auðvitað öðrum augum núna þar sem að ég er viðtakandi, en bara hugsunin á bak við þetta er óeigingjörn og öðrum til eftirbreyttni. Það eru margir sektarsjóðirnir sem fara í skemmtanir og áfengiskaup, en að er ljóst að svo verður ekki í framtíðinni hjá þeim liðum sem ég kem til með að þjálfa."

Fjarðabyggð er á toppnum í 2. deild í augnablikinu og Leiknir á toppnum í 3. deild en bæði lið hafa tryggt sig upp um deild.Frétt frá Fótbolta.net.